Hópur kaupmanna við Laugaveg kvartar enn eitt árið yfir því að götunni sé lokað fyrir bílaumferð yfir sumarið.
Þetta hefur raunar þótt takast afar vel síðustu árin – eða það finnst flestum.
Í raun er þetta afar einfalt reikningsdæmi.
Gert er ráð fyrir að á þessu ári komi til Íslands hátt í 750 þúsund ferðamenn.
Stærstur hluti þessa fólks kemur um sumarið og flestir fara til Reykjavíkur.
Þetta er mjög rúmlega tvöföld íbúatala þjóðarinnar og reyndar er því spáð að ekki líði á löngu þar til ferðamannastraumurinn nær þrefaldri íbúatölunni.
Það má ætla að ferðamennirnir séu í meirihluta þeirra sem eru í miðborginni á sumrin. Og þeir eru fæstir að troðast á bílum niður Laugaveginn.
Og raunar er það svo að ferðamennirnir standa undir stórum hluta starfseminnar í miðborginni – án þeirra væri stór hluti af búðunum og veitingahúsunum einfaldlega ekki til.