Kolbrún Bergþórsdóttir vinkona mín slær algjörlega í gegn með Moggapistli sínum um fótboltann.
Henni tekst að pirra fullt af fólki – aðallega karlmenn – og það er fínt.
Fótbolti er ágætur leikur, en offramboðið á honum er gengdarlaust núorðið. Nú er varla sá kappleikur að hann sé ekki sýndur í beinni útsendingu og ef einhver dettur á hausinn eða sparkar í annan leikmann þarf að fjalla um það í löngu máli, greina það ofan í smáatriði. Ég tala nú ekki um ef fótboltamaður segir eitthvað ljótt.
Í þessu er náttúrlega ákveðinn veruleikaflótti, þetta er heimur með einföldum lögmálum þar sem er þægilegt að dvelja. Allt endurtekur sig aftur og aftur; yfirleitt vinna sömu liðin alltaf og þannig gerist í rauninni sama og ekki neitt.
Ekki frekar en til dæmis í skáldsögu eftir Jane Austen; þar líður líka allt áfram í sínu fasta fari.