Við fjöllum um verkalýðsmál í Kiljunni í kvöld, 1. maí.
Förum í gömlu verkamannabústaðina við Hringbraut og niður á höfn með Þorleifi Friðrikssyni sagnfræðingi. Hann hefur nýlokið við að skrifa annað bindi sögu verkamannafélagsins Dagsbrúnar, en það nefnist Dagar vinnu og vona.
Í bókinni segir Þorleifur mikið af kjörum alþýðu fyrir miðja síðustu, þannig nálgast hann viðfangsefnið fremur en að skrifa hefðbundna stofnanasögu. Fyrir vikið verður bókin mun áhugaverðari en ella. Hana prýða svo einstakar ljósmyndir sem teknar voru af verkamanninum Karli Christian Nielsen.
Jón Sigurðsson, fyrrverandir rektor á Bifröst, Seðlabankastjóri og formaður Framsóknarflokksins, kemur í þáttinn og segir frá nýrri bók eftir sig. Hún nefnist Eigi víkja, en þar gerir Jón grein fyrir þróun íslenskrar þjóðhyggju á nítjándu öld og fram á þá tuttugustu. Heiti bókarinnar er auðvitað komið frá nafna hans Jóni Sigurðssyni forseta.
Sirrý, Sigríður Arnardóttir, segir okkur frá bók sem hún hefur gefið út og nefnist Örugg tjáning.
Gagnrýnendur þáttarins fjalla um tvær bækur: Síðustu freistingu Krists eftir Nikos Kazantzakis í þýðingu Sigurðar A. Magnússonar, þetta er ein umdeildasta bók allra tíma, og endurútgáfu á ljóðabókinni Nei eftir Ara Jósefsson. Ari var mikið efni en drukknað sviplega þegar hann datt fyrir borð á Gullfossi.
Bragi tínir til eitt og annað smálegt – segir meðal annars frá tippinu sem fékk ekki að vera í friði í Flatey.
Karl Christian Nielsen var verkamaður í Reykjavík sem hafði brennandi áhuga á ljósmyndun. Myndir hans eru varðveittar í Ljósmyndasafni Reykjavíkur og prýða bókina Daga vinnu og vona eftir Þorleif Friðriksson.