Franska dagblaðið Le Figaro segir að íslenskir kjósendur hafi í gær snúið baki við Búsáhaldabyltingunni.
Það má til sanns vegar færa.
Kosningarnar vekja athygli víða um heim, því er sums staðar slegið upp að hrunflokkarnir hafi aftur náð völdum. En auðvitað er það ekki svo einfalt. Samfykingin var hrunflokkur sem gekk beint úr hrunstjórninni í „norrænu velferðarstjórnina“ sem beið afhroð í gær.
Ég hef sjálfur talað við nokkurn fjölda erlendra fjölmiðla og sagt þeim að tal um að hrunflokkar séu aftur að taka við sé mikil einföldun. Óvinsælda ríkisstjórnarinnar sé fyrst og fremst að leita í störfum hennar sjálfrar – hringja ekki viðvörunarbjöllur þegar vinstri stjórn verður uppáhald hjá Alþjóða gjaldeyrissjóðnum?
Sigur Pírata vekur athygli í Þýskalandi. Það er ekki nema vonlegt. Um tíma leit út fyrir að Píratar næðu allt að tíu prósenta fylgi í þingkosningum þar í landi í september. Nú er fylgið komið niður í tvö prósent, meðal annars vegna innri átaka, en úrslitin á Íslandi geta virkað uppörvandi.
Aðalspennan er auðvitað hvort Bjarni Benediktsson eða Sigmundur Davíð Gunnlaugsson fær stjórnarmyndunarumboðið. Fyrir Bjarna er það eiginlega lífsspursmál að verða forsætisráðherra, Sigmundur getur lifað með því að verða það ekki – hann ætti þá að taka að sér það ráðuneyti sem sér um að semja við erlenda kröfuhafa og koma í gegn boðuðum skuldaniðurfellingum.
Það er eðlilegast. Sigmundur getur eiginlega ekki gefið neitt eftir af loforðum Framsóknar, annars gætu þau orðið myllusteinn um háls hans, líkt og skjaldborgin varð um háls Jóhönnu.
Samfylkingin er hrikalegri stöðu. Þar eru þingmenn strax farnir að rífast um úrslitin. Ólína Þorvarðardóttir skellir hurðum og sakar Árna Pál um að hafa svikið stefnumál flokksins. Það verður heldur daufleg vist í þingflokksherbergi Samfylkingarinnar með aðeins níu þingmenn. Stærstur hluti þeirra hefur setið á þingi síðan fyrir hrun.
Vinstri grænir eru í dálítið annarri stöðu þrátt fyrir tap. Þeir hafa formann sem nýtur vinsælda langt út fyrir raðir flokksins. VG hefur losnað við mikið af flokksmönnum sem ollu miklum vandræðum. Hinir brotthlaupnu reyndu fyrir sér á öðrum slóðum en mistókst öllum hrapallega. Það styrkir VG. Steingrímur og Ögmundur eru enn í þingliðinu, það er dálítið kaldhæðnislegt að þeir geti aftur tekið til óspilltra málanna í stjórnarandstöðu.
Og nú að flokkunum sem komust ekki inn á þing. Það hefði verið óþolandi ef Píratarnir hefðu verið rétt undir markinu, þá hefðu alltof mörg atkvæði fallið dauð. En hinir nýju flokkarnir geta að mörgu leyti sjálfum sér um kennt. Það þýðir ekki bara að kvarta undan vondum kosningalögum. Upphaflega virtist nokkur hópur ætla að sameinast í Dögun, Lýðræðisvaktin klauf sig þaðan út stuttu fyrir kosningar og síðan fer einn helsti frammámaður Lýðræðisvaktarinnar og stofnar Flokk heimilanna.
Þetta gat varla endað með öðru en sameiginlegu skipbroti.