Ein helsta birtingarmynd valds forseta Íslands er að hann hefur hlutverki að gegna þegar ríkisstjórnir eru myndaðar.
Þegar þeirri ríkisstjórn sem nú situr var fyrst komið á laggirnar, í janúar 2009, lagði Ólafur Ragnar Grímsson ákveðnar línur fyrir myndun hennar. Þetta þótti óvenjulegt. Raunar er ýmislegt á huldu um aðkomu Ólafs Ragnars að myndun þeirrar ríkisstjórnar.
En forsetinn nefndi fjögur verkefni:
„Þeir fjórir þættir sem ég nefndi, það er samfélagsleg sátt, endurnýjun á hinu pólitíska umboði, trygg tök á efnahagsvanda þjóðarinnar og farvegur fyrir umræðu um nýja stjórnskipan.“
Nú liggur fyrir að mynduð verður ný ríkisstjórn eftir kosningarnar í kvöld.
Skyldi Ólafur Ragnar leggja henni einhverjar línur?
Og svo er spurning hvernig hann ber sig að. Ein aðalspennan í kosningunum er hvor flokkurinn verði stærri, Sjálfstæðisflokkurinn eða Framsókn. En það er nokkuð ljóst að Framsóknarflokkurinn verður helsti sigurvegari kosninganna, bætir við sig mestu fylgi. Önnur möguleg staða er reyndar að Framsóknarflokkurinn fái fleiri þingmenn en Sjálfstæðisflokkurinn út á minna fylgi.
En þá er spurning hvor fær stjórnarmyndunarumboðið frá Ólafi Ragnari, Bjarni Benediktsson eða Sigmundur Davíð Gunnlaugsson – og hvaða aðferð notar forsetinn til að tilkynna það? Þarna gæti fallið á hann sviðsljós – en því er hann yfirleitt ekki sérlega fráhverfur.