Eins og oft hefur verið sagt hér á þessari síðu var landsdómsmálið gegn Geir Haarde afar misráðið.
Það varð enn hæpnara þegar ljóst var að samráðherrar hans myndu ekki koma fyrir landsdóm. Þá var orðin svo stæk pólitísk lykt af ferlinu að sveið í augu.
Með þessu er ekki verið að afsaka Geir eða framgöngu hans sérstaklega. Hann og ríkisstjórn hans – og reyndar ríkisstjórnin þar á undan – bera ábyrgð á stórfelldum mistökum í hagstjórn sem leiddu til efnahagshruns. Í raun missti stjórn hans algjörlega tökin á ríkinu.
Á síðustu metrunum náði Geir þó að klóra aðeins í bakkann með neyðarlögunum, þótt lengi verði sjálfsagt hægt að deila um afleiðingar þeirra.
En í vestrænum lýðræðisríkjum er á ekki að vera hægt að dæma stjórnmálamenn fyrir vondar ákvarðanir eða vitlausa stefnu, ekki nema glæpsamlegur ásetningur hafi búið að baki, og svo var ekki hjá Geir.
Honum og Ingibjörgu Sólrúnu hefur raunar verið refsað á sinn hátt. Þau hurfu bæði úr stjórnmálum við lítinn orðstír – og nöfn þeirra verða alltaf tengd við hrunið.
En það þarf ekki að koma á óvart ef nefnd á vegum Evrópuráðsins kæmist að þeirri niðurstöðu að landsdómsmálið gegn Geir hafi verið afar misráðið.