Það er merkilegt að heyra þau orð forsætisráðherra að forseti Íslands fari með fullveldismál.
Í raun er engin hefð fyrir þessu, enda spurning hvað séu fullveldismál og hvernig sé hægt að skilja þau frá öðrum málum?
Er átt við alþjóðasamninga eða utanríkismál almennt?
Sveinn Björnsson skipti sér ekki af því þótt þjóðin gengi í Nató og hér settist að erlendur her, Ásgeir Ásgeirsson, Kristján Eldjárn og Vigdís Finnbogadóttir héldu sig fyrir utan deilur um þetta – sem svo sannarlega hlýtur að teljast fullveldismál.
Á tíma Kristjáns Eldjárns var samið um inngöngu í EFTA en á tíma Vigdísar um aðild að EES. Hvorugur forsetinn beitti sér í þessum málum.
Eins og segir er afar óljóst hvað sé fullveldismál?
Er íslenska krónan það kannski?
Hún er þess eðlis að hún er hvergi gjaldgeng nema á Íslandi, og þá reyndar bara í ákveðnum viðskiptum.
Benedikt Jóhannesson stærðfræðingur skrifar grein í síðasta hefti Vísbendingar og reiknar út að krónan kosti þjóðina 80-110 milljarða á ári – og það er miðað við „eðlilegt ástand“.
Er það fullveldismál að halda í þennan gjaldmiðil og þá fyrir hvern?