Merkilegt er þetta tal um að framtíð Íslands liggi í einhverju norðurslóðadæmi. Nú síðast var Ólafur Ragnar að tala um þetta í ræðu við setningu Alþingis.
Allt er þetta frekar óljóst.
Íslendingar eiga ekki land að Norðurheimskautinu, við erum langt fyrir sunnan, rétt höngum í heimsautsbaugnum. Við eigum ekki tilkall til orku-eða námavinnslu sem kann að verða á svæðinu þegar ísa leysir. Þó er hugsanlegt að við gætum eignast einhverja hlutdeild í fiskveiðum, en það verður alltaf erfitt að sækja fisk á þetta hafsvæði.
Það er talað um að í framtíðinni verði siglingar yfir Norðurheimskautið og hugsanlega með viðkomu í höfn á Íslandi. Þetta er þó enn sem komið er hreinar vangaveltur.
Íslend er eitt átta ríkja sem á sæti í Norðurheimskautsráðinu. Það gefur okkur ákveðna stöðu, en hana þarf þó ekki að ofmeta. Kínverjar hafa vingast við okkur síðustu ár vegna þess að þeir vildu komast að sem áheyrnarfulltrúar í ráðinu. Þeir náðu því markmiði í síðasta mánuði. Norðurheimskautsráðið hittist næst 2015.
Hagsmunir Íslendinga á norðurslóðum felast aðallega í því að mótmæla öllu sem spillir náttúrunni. Olíu- og námavinnsla á svæðinu getur haft skelfileg umhverfisáhrif, þarna er risastórt autt haf með miklum ís, vondum veðrum og fáum höfnum. Ef siglingar aukast er mikil hætta á sjóslysum.
Atvinnuvegir Íslendinga eru aðallega fiskveiðar, ferðamennska og iðnaður sem byggir á orku.
Við munum aldrei selja fisk til norðurslóða – hann fer eftir sem áður mestanpart til Evrópu.
Við munum ekki fá ferðamenn frá norðurslóðum. Þar er afar fátt fólk. Ferðamennirnir munu eftir sem áður fyrst og fremst koma frá Evrópu.
Við munum ekki selja afurðir stóriðjunnar til norðurslóða og þaðan munu ekki koma fjárfestingar til iðnaðaruppbyggingar.
Verði til, eins og margir óska, miklu virkari hátæknigeiri hér, mun hann heldur ekki byggja á norðurslóðum.
Og ekki heldur efling Íslands sem matvælaframleiðslulands sem boðuð er í stjórnarsáttmálanum.
Jú, við getum átt góð samskipti við þjóðirnar sem eru næst okkur í norðrinu. En út- og innflutningsverslun okkar mun áfram beinast aðrar áttir og það er það sem skiptir mestu máli.
Raunar er til hópur manna sem dreymir um að vegna hræringa á norðurslóðum fari Bandaríkjamenn að huga að því að koma hingað aftur. Það er hefð út úr því fáist ákveðinn gróði og hugsanlega pólitískt áhrifavald. Flestir hlæja þó að þessari hugmynd – hún er fásinna. Kaninn er ekki að koma aftur.