Hvað er það sem tefur skuldaleiðréttinguna sem sannarlega var lofað fyrir kosningar?
Og hún átti helst að vera strax.
Eru það samningar við kröfuhafa – þeir voru tengdir við skuldaleiðréttinguna í aðdraganda kosninganna. Ef svo er gæti verið langt að bíða – þessir samningar eru ekki að verða að veruleika á næstunni og það er ákveðnum vandkvæðum bundið að nota „svigrúmið“ sem þeir eiga að tryggja til að lækka skuldir heimila.
Er það tregða Sjálfstæðisflokks við að uppfylla þessi kosningaloforð eins og Össur Skarphéðinsson heldur fram í pistli?
Var ekki nógu vel búið um hnútana? Það var meira að segja talað um að ríkið tæki á sig upphæðina sem væri afskrifuð.
Eða eru menn kannski komnir að þeirri niðurstöðu , nú þegar þeir eru sestir í ríkisstjórn, að stóra kosningaloforðið – móðir allra kosningaloforða, eins og það hefur verið kallað – sé óframkvæmanlegt?