Það er auðvelt að skopast með það markmið ríkisstjórnarinnar að efla þjóðlega menningu.
Þetta er augljóslega komið frá Framsóknarflokknum.
En það er engin ástæða til að leggja þetta út á versta veg – þetta snýst varla bara um glímu og súrmat.
Í þessu hlýtur að felast fyrirheit um að efla íslensk fræði, fornleifarannsóknir, bókmenntir – jú, og hugsanlega íslenska dagskrárgerð í sjónvarpi.
Sjálfur hef ég undanfarnar vikur verið i Kanada og Bandaríkjunum við að gera þætti um sögu Íslendinga sem þangað fluttu. Við höfum farið til Manitoba, Alberta, Norður-Dakóta og Bresku Kólombíu – þar erum við nú, á leið út á Vancouver-eyju,
Gerð þáttanna var ákveðin löngu áður en ríkisstjórnin tók við, en hlýtur að falla vel undir markmiðið um eflingu þjóðlegrar menningar. Hér höfum við hitt fjölda fólks sem ann henni heitt.