Nú þegar ríkisstjórnin stefnir að mikilli uppbyggingu í áliðnaði, hljóta menn að velta fyrir sér arðsemi slíkra fjárfestinga. Álver útheimta risastórar virkjanir, þau þurfa óhemju magn af raforku – og hafa ekki borgað viðunnandi verð fyrir hana.
Þetta hefur komið fram á mörgum stöðum, til dæmis hjá Landsvirkjun sjálfri og nú síðast í gögnum Samráðsvettvangsins.
Guðbjört Gylfadóttir, stærðfræðingur sem starfar hjá Bloomberg LP í New York, skrifar bréf til Sigurðar Ing Jónassonar, sem fer með umhverfisráðuneytið.
Guðbjört fjallar um fremur dökkar horfur í áliðnaði vegna offramboðs á áli, minnkandi eftirspurn og mikið magn af áli sem hleðst upp í vöruskemmum.
Annað sem hún segir að vald erfiðleikum fyrir áliðnaðinn sé hækkandi raforkuverð og aukin notkun annarra efna en áls, eins og til dæmis kolatrefjaefna.
Guðbjört skrifar:
„Það borgar sig ekki að framleiða meira ál í heiminum í bili. Álframleiðsla er í tapi eða rétt á núlli miðað við núverandi framleiðslustig.“
Svo segir hún að Norðurál þyrfti helst að fá borgað með álverinu í Helguvík til að það standi undir sér:
„Það ætti ekki að undra að samningar hafi ekki náðst milli Landsvirkjunar og Norðuráls vegna rafmagnsverðs. Ef Alcoa, sem er miklu stærra en Norðurál og nær þ.a.l. betri samlegðaráhrifum ætlar að draga saman segl, þyrfti Norðurál helst að fá borgað með rafmagninu sem það þarf til álframleiðslunnar svo það borgaði sig að stækka Helguvík. Ég hvet þig Sigurður Ingi til að afla þér gagna um hagkvæmni álversins í Helguvík, sér í lagi hvernig rekstraraðilar hafa hugsað sér að reka það álver með hagnaði. Miðað við eðlilegt rafmagnsverð frá Landsvirkjun (við ættum ekki að gefa þeim rafmagnið) og miðað við t.d. þrjár mismunandi horfur (e. scenario analysis) á markaðsverði áls, t.d. $1.800/tonn, $1.900/tonn, $2.000/tonn. Athuga þarf að Norðurál gefi sér raunhæfar væntingar um markaðsverð á áli, það væri t.d. fásinna að gera ráð fyrir $2.300/tonn langtíma marksverði. Ég myndi síðan gjarna vilja sjá þessi gögn og fara yfir þau.“
Þvínæst fjallar Guðbjört um hversu dýrt sé að skapa störf í áliðnaðnum, það sé í rauninni hagkvæmara að gera „eitthvað annað“:
„81% af raforkuframleiðslu Íslendinga er notuð í málmiðnað (McKinsey skýrslan, bls. 39, neðanmálsgrein 22). 24% af vergri þjóðarframleiðslu er tilkomin vegna auðlindanýtingar (fiskiðnaðar, landbúnaðar, orkuframleiðslu og málmiðnaðar, hluti af), en 45% af fjárfestingu er nýtt í auðlindaiðnaðinn. Og aðeins 15% þeirra 167 þúsund sem eru virkir á atvinnumarkaði hafa atvinnu af auðlindaiðnaðinum (McKinsey skýrslan, mynd 9, bls 25). Það þýðir að það eru 58 milljónir í fjárfestingu á bak við hvern þann sem vinnur í auðlindaiðnaðinum, á meðan það er einungis um 12,5 milljónir í fjárfestingu á bak við hvern starfsmann í hvaða öðrum geira sem er. Það er því 4,6 sinnum dýrara fyrir ríkið að skapa störf í auðlindaiðnaði en í öðrum geirum. Og það fást einungis 250 milljónir af vergri þjóðarframleiðslu fyrir hvern milljarð í fjárfestingu í auðlindaiðnaði, en það fást 650 milljónir af vergri þjóðarframleiðslu fyrir hvern milljarð í fjárfestingu fyrir allt annað að meðaltali. Það er því a.m.k. 2,6 sinnum arðbærara að gera „bara eitthvað annað“ en að virkja og búa til álver. (Það er meiri hagnaður af fiskiðnaði en málmiðnaði og orkuframleiðslu, svo margfeldið er hærra fyrir seinni þættina)Það kemur oft fram mikil gagnrýni á fólk sem vill bara að ekki sé virkjað eða álver reist og er sú gagnrýni oft að fólkið leggi ekki til neitt gott í staðinn. Hér virðist ljóst að það séu bara ágætis rök að gera „eitthvað annað“, 2,6 sinnum betra -mælt í vergri þjóðarframleiðslu.“
Bréfið má lesa í heild sinni hérna.