Þessi ljósmynd sýnir Skólavörðustíginn á níunda áratugnum, áður en gagngerar breytingar voru gerðar á honum. Þessi mynd birtist á vefsíðunni 101Reykjavík.
Þarna er leikfangaverslun sem margir muna eftir, stofa Péturs rakara sem klippti menn með símtól undir vanganum, hann var umboðsmaður hljómsveita og var sífellt að bóka þær út um allt land. Svo var þarna gjafavörubúð lengi sem seldi og einnig var þarna til húsa Bókin – helsta fornbókaverslun bæjarins. Þar kom maður og spjallaði við heiðursmennina Gunnar Valdimarsson og Snæ Jóhannesson.
Bak við var svo Breiðfirðingabúð. Þar hafði verið ýmisleg starfsemi, fyrst átthagafélaga á blómatíma þeirra og svo var þarna um tíma skemmtistaður fyrir unglinga þar sem margar nafntogaðar hjómsveitir tróðu upp. Nokkuð sérkennilegur maður, sem ég man ekki nafnið á, rak síðan Íslenska dýrasafnið í Breiðfirðingabúð. Þar voru nokkur uppstoppuð dýr. Stuðmenn gerðu safnið ódauðlegt í myndinni Með allt á hreinu.
Skólavörðustígur 10, þar sem leikfangabúðin var, nefndist Bergshús. Þar leigði Þorbergur herbergi undir súð eins og frægt er úr Ofvitanum. Húsið var flutt í Árbæjarsafn 1990.Þessu var öllu rutt burt og það var ekki endilega til bóta. Húsin sem komu í staðinn eru ekki sérlega falleg. En Skólavörðustígurinn má þó eiga að hann er ein skemmtilegasta gata bæjarins – og þar sem Berghús var er nú Kaffifélagið, besta kaffihús bæjarins.