Ingmar Karl Helgason fréttamaður, sem var framboði fyrir Vinstri græna í Reykjavík, hneykslast yfir því að fjölmiðlar séu að birta fréttir af stjórnarmyndunarviðræðum – þegar lítið er að frétta.
Hann sér merki einhvers ógurlegs spuna þarna að baki.
Nú er aðalvandamál fjölmiðlanna við þessar viðræður að ekkert lekur í raun út um gang þeirra, nema hvað sagt var að í dag myndu flokksformennirnir ræða skulda- og skattamál og einnig hefur verið upplýst að ráðherrum verði hugsanlega fjölgað.
Það má kannski gagnrýna formennina fyrir að gera þetta svona. Kannski ættu þingflokkarnir að koma meira að málinu, upp til hópa virðast þingmenn vita jafn lítið og fjölmiðlarnir. Við vitum þó ekki gjörla hvað er að fara fram – kannski er hópur fólks að fara yfir málin á ókunnum stað í leynd meðan formennirnir funda í sumarbústöðum?
En meðan ástandið er svona – og væntanlega verður þetta allt upplýst síðla í næstu viku þegar líklegt er að stjórn verði mynduð – fylgjast fjölmiðlarnir með utan í frá. Það er enginn að kjafta af sér. En það er ekki þar með sagt að þetta sé allt merkingarlaust. Val á fundarstöðum, já, jafnvel val á tónlist eða bakkelsi, getur haft sína merkingu.
Eða muna menn ekki þegar Jón Baldvin og Davíð Oddsson fóru út í Viðey að mynda stjórn á sínum tíma – þá var það svipurinn á andliti þeirra sem sagði meira en allar fréttirnar sem birtust?
Í huga mér eru þessar myndir að minnsta kosti tákn fyrir allt sem þessi stjórn var; funandi ást sem braust fram í rjóðum vöngum beggja stjórnmálaforingjanna, en kólnaði síðar og endaði í gagnkvæmu óþoli og loks hatri.