Það er besta að skýra málið fyrst Vísir er farinn að slá þessu upp. Svona til að leiðrétta villu sem er í fréttinni – og er að sönnu upprunnin hjá mér.
Ég sagði í Silfrinu í gær að við Steingrímur J. hefðum veðjað um viskíflösku í kosningum, ég sagði að VG yrði undir 10 prósentum í kosningunum, Steingrímur sagði að flokkurinn yrði yfir tíu prósentum.
Í þættinum sagði ég að þetta hefði verið í kosningunum 2007.
En ártölin eru aðeins farin grautast saman hjá mér eftir langan tíma í pólitískri umfjöllun.
Hið rétta er að þetta var í kosningunum 2003. Þá fékk VG 8,8 prósent – og ég vann veðmálið.
Man reyndar að þetta veðmál, sem var gert í tómu gríni og léttúð, varð til eftir útsendingu á Skjá einum. Þar var ég fram yfir kosningarnar 2003.
Svo á kosninganóttina man ég eftir því að hafa gengið við á kosningafögnuði VG sem var í Iðnó. Þar var ekki sérlega glatt á hjalla. En ég hugsaði með mér að ég hefði unnið viskíflösku.
Hana fékk ég aldrei, en það skiptir engu máli. Mér finnst viskí vont og dettur ekki í hug að drekka það.