Síðast voru það leikskólakennarar, nú eru það lögreglumenn. Fólk sem vinnur afar mikilvæg störf.
Báðar stéttirnar njóta virðingar í íslensku samfélagi.
Það hafa komið fram tölur um grunnlaun lögreglumanna, þau eru fjarska lág. Svo hafa verið birtar tölur sem segja að ofan á grunnlaunin fái lögreglumenn greiðslur sem hífi heildartöluna upp. En þetta eru samt lág laun miðað við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.
Lögreglumenn beina mótmælum sínum ekki síst að alþingismönnum. Það er önnur stétt sem hefur lág laun. Það þykir nánast dónaskapur að segja að rétt sé að hækka laun þingmanna.
Lögreglumenn íhuga að segja sig unnvörpum úr óeirðasveitum sem hafa verið tiltækar víða um land. Í því felst náttúrlega viss hótun – að lögreglan muni hætta að gæta stjórnvalda. Það er býsna alvarlegt mál.
Þrátt fyrir að sagt sé að íslenska hagkerfið sé að rétta úr kútnum hafa laun hér dregist verulega aftur úr meðan verðlag hefur hækkað mikið og skuldirnar rokið upp. Þar eru lögreglumenn síður en svo einir á báti.
Á endanum fá þeir sjálfsagt einhverjar hækkanir sem hverfa fljótt í verðbólgunni. Það verður skammgóður vermir – hin stóru verkefni sem bíða stjórnvalda eru að taka á skuldamálunum, auka kaupmáttinn og koma á stöðugleika í peningamálum sem er ekki fenginn með höftum.