Það er ástæðulaust að láta eins og Palestínudeilan sé óskaplega flókin. Það er hún í raun ekki.
Málið snýst um að Ísrael ætlar að leggja undir sig alla Palestínu – án þess að veita Palestínumönnum sem búa á svæðinu borgaraleg réttindi sem þykja sjálfsögð annars staðar í heiminum.
Palestínumenn eru annars flokks borgarar í landinu – það þykir í lagið að þrengja að þeim með girðingum og vegum sem þeir fá ekki að aka, ræna vatni þeirra og landi.
Þetta er í raun ekki annað en nýlendustefna.
Það er stundum talað um að rétt sé að byrja friðarviðræður aftur, en á sama tíma er ekkert lát á útþenslustefnunni.
Það eru eiginlega bara tvær lausnir á málinu. Önnur er sú að setja upp tvö ríki á svæðinu, það útheimtir að Ísraelar leggi niður stóran hluta af landránsbyggðum sem eru inni á landi Palestínumanna. Það getur ekki talist vera ósanngjörn krafa, en Ísraelsstjórn vill ekki gefa þetta eftir.
Hin er að þarna verði eitt ríki. Það er hins vegar fjarlægur draumur – en auðvitað ekki óhugsandi. Hvítu fólki og blökkumönnum í Suður-Afríku tekst að búa saman í einu landi – eftir áralanga kúgun hvítra á svörtum.
Þriðji möguleikinn er framhald á núverandi ástandi þar sem stöðugt er verið að skerða land Palestínumanna – framhald á nýlendustefnunni. Það er í raun stefna núverandi Ísraelsstjórnar. En heimsbyggðin getur ekki horft upp á það – ekki fremur en hún gat horft aðgerðalaus upp á aðskilnaðarstefnuna í Suður-Afríku á sínum tíma – og þá er ekki hægt að skýla sér á bak við skilnings- eða þekkingarleysi.