Þegar ég kom til Rússlands í fyrra brá mér við hvað ástandið í landinu er í rauninni erfitt. Ég heyrði sögur af feikilegri spillingu, valdastétt sem fær enn að aka bílum hraðar og greiðar en aðrir og komast upp með að brjóta umferðarreglur. Lögreglu sem tekur fólk til að hafa af því fé. Æpandi ójöfnuður blasti alls staðar við, stór hluti Rússa lifir enn á sinni kálsúpu meðan aðrir stunda rándýrustu veitingastaði og hótel í heimi. Verðlag í Moskvu er brjálæðislegt. Ég varð var við mikið útlendingahatur, ekki síst andúð á gyðingum og fólki sem kemur úr Asíulöndum sem áður tilheyrðu Sovétríkjunum.
Sjálfur hef ég kynnst blaðamönnum af Novaya Gazeta, frjálsasta fjölmiðli Rússlands. Það eru hugaðir menn. Fjórir blaðamenn af Novaya Gazeta voru myrtir milli 2001 og 2009, frægust er Anna Politkovskaya. Kunningi minn, ritstjórinn Dimitri Muratov, er margverðlaunaður fyrir störf sín á Vesturlöndum, en heima eru hann og hans fólk í hættu vegna þess sem þau skrifa.
Öfugþróunin virðist halda áfram. Í grunninn er Rússlandi stjórnað af einhvers konar bandalagi öryggislögreglunnar sem forðum hét KGB og ræningjakapítalista. Það er búið að flytja ótrúleg auðæfi úr landi. Nú ætlar Dimitri Medvedev forseti að gefa eftir embætti sitt svo Vladimir Pútín geti aftur sest í það. Pútín varð að hverfa úr forsetaembættinu um hríð – hann mátti ekki sitja samfellt lengur. Medvedev sá um að halda stólnum heitum fyrir hann og Pútín var forsætisráðherra á meðan.
Þetta kann að virðast eins og farsi, en er auðvitað dauðans alvara – og til marks um að Rússland er enn hálfgert einræðisríki.