Það er yndislegt að skipta um skoðun. Maður ætti helst að gera það oft. Það er gott fyrir sálina. Maður eldist og er ekki sami maður og áður – af hverju ætti maður þá að ríghalda í skoðanirnar.
Ég er mikill áhugamaður um tónlist. Hún hefur eiginlega verið mitt aðaláhugamál frá því ég var drengur. Kannski var misskilningur að ég skyldi ekki verða tónlistarmaður – en mig skorti ástundun og kannski hæfileika líka.
Ég hlusta á alls konar tónlist. Ég er hallur undir skilgreiningu Miles Davis að það sé eiginlega bara til tvenns konar tónlist – góð og slæm. Góða tónlist má finna í öllum greinum; ég get hlustað á popp, rokk, djass, soul, blús og klassík – jafnvel kántrí. Hið síðastnefnda kom þó ekki fyrr en seint. Jú, og ég er nokkuð vel að mér um gríska tónlist.
Ég á mín uppáhalds klassísku tónskáld – hina stóru sínfóníkera Mahler og Shostakovits, píanósónötur Beethovens, hinn fíngerða vef í verkum Debussys, Chopin.
En ég taldi mér lengi trú um að ég þyldi ekki Sibelius, Tsjaikovskí – og að einhverju leyti ekki Skríabin heldur.
Ég varð afhuga Sibeliusi við að hlusta á finnska stjórnendur þræla Sinfóníunni í gegnum verk hans á löngu tímabili. Tsjaikovskí fannst mér útblásinn af tilfinningavellu og dálítið hlægilegur. Þetta með Skríabin, ég man ekki einu sinni ástæðuna, jú, mér leiddist einhvern tíma þegar ég heyrði flutt verk eftir hann.
Ég uppgötvaði Sibelius þegar ég fór til Finnlands fyrir tveimur árum. Þá var mér gefinn diskur með tónlist hans sem ég spilaði út í eitt á hótelherberginu og síðar í bílnum eftir að ég kom heim.
Eftir glæsilega tónleika með Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar og Dudamel síðastliðinn sunnudag neyðist ég til að endurmeta sinfóníurnar eftir Tsjaikovskí.
Og Skríabin – ja þetta er snilld: