Ekki hef ég enn fengið skýringu á því hvers vegna ég missti aðgang minn að Facebook.
Maður er hins vegar dálítið hugsi yfir fyrirbærinu ef hægt er að þurrka út fólk sisvona – og allt sem það geymir þarna inni, vinasambönd, textabrot, ljósmyndir.
Ég sendi kvörtun út á ljósvakann – vissi ekki hvort hún yrði meðhöndluð af manni eða vél.
Í morgun fékk ég svar, undirritað Daphne. Þar er ég beðinn afsökunar á mistökum sem hafi orðið og tilkynnt að ég geti aftur komist inn á Facebook.
Það var ekki gefin nánari skýring á því hvað hefði gerst – en mér sýnist að á síðunni sé allt efni sem var þar áður.
Svo er náttúrlega spurning hvort maður vilji snúa aftur eftir að hafa verið í nokkra daga utan Fésbókarheimsins. Kannski var það bara ákveðinn léttir?