Í Kiljunni í kvöld verður fjallað um eitthvert mesta stórvirki í íslenskri bókaútgáfu fyrr og síðar, Íslenska listasögu, sem er að koma út í fimm bindum hjá Forlaginu og Listasafni Íslands.
Þetta er yfirlitsverk um íslenska myndlist frá miðri 19. öld og fram til vorra daga, ríkulega myndskreytt og með texta eftir valinn hóp höfunda.
Útgáfan hefur kostað óhemju mikið fé og er fjarska metnaðarfull. Til dæmis eru flestar ljósmyndir af listaverkunum teknar sérstaklega vegna bókarinnar.
Samhliða útgáfu bókarinnar verður opnuð sýningin Þá og nú í Listasafni Íslands en þar verður reynt að skoða vendipunkta í myndlistarsögu okkar.
Páll Baldvin Baldvinsson og Kolbrún Bergþórsdóttir ræða um þrjár nýútkomnar bækur: Ríkisfang ekkert eftir Sigríði Víðis Jónsdóttur, Rannsóknina eftir Philippe Claudel og Fásinnu eftir Horacio Castellanos Moya.
Bragi segir frá hinni vellauðugu Sonju Zorilla.