Guðmundur Steingrímsson fór úr Framsóknarflokknum til að stofna frjálslyndan flokk. Áður hafði hann yfirgefið Samfylkinguna – margt bendir til þess að þar eigi hann í rauninni heima.
Samfylkingarmaður einn sem ég ræddi við batt miklar vonir við framboð Guðmundar, hann sagðist ekki ætla að kjósa það sjálfur, en það væri nauðsynlegt að fram kæmi annar flokkur en Samfylkingin sem styddi aðild að Evrópusambandinu.
Það gerir Guðmundur.
Nú virðast vera hafnar þreifingar milli Guðmundar og Besta flokksins. Besti flokkurinn fékk góða kosningu í borgarstjórnarkosningum vorið 2010 út á tvennt: Grín og óánægju með gömlu flokkana.
Besti flokkurinn ræður ríkjum í Reykjavík og það er mestanpart business as usual. Besta flokknum hefur ekki tekist að setja neinn sérstakan svip á borgina, kannski er heldur ekki von til þess – fjárhagsstaðan er harla bág. Maður tekur altént eftir því að orkureikningar heimilanna hafa hækkað allsvakalega. En flokksmenn virðast ekki vera neitt yfirmáta hugmyndaríkir.
Besti flokkurinn getur alveg stjórnað eins og hinir – og hann er kannski ekki svo mikið öðruvísi. Flokksmenn eiga greinilega mjög mikla samleið með Samfylkingunni. Það virðast að miklu leyti vera embættismenn sem ráða ferðinni hjá borginni, þeir eru alls staðar á fleti fyrir. Sumir borgarfulltrúar Besta flokksins hafa meira að segja náð því að verða ansi kerfislegir. Flokkurinn heldur samt ennþá smávegis af pólitíska sakleysinu frá því í kosningunum 2010.
Það myndi breytast fljótt í þingframboði með Guðmundi Steingrímssyni. Allur vottur af gríni yrði þá á bak og burt. Guðmundur er að reyna að feta í fótspor föður síns og afa sem báðir voru frægir stjórnmálaleiðtogar. Það eru engin gamanmál hjá honum. Og fólkið úr Besta flokknum yrði að fara að taka afstöðu til mála sem kljúfa þjóðina – og nyti þess varla lengur að vera óspjallað af pólitík.