Sveinn Óskar Sigurðsson viðskiptafræðingur var í viðtali í Silfri Egils á sunnudag um meistaraprófsritgerð sína. Sveinn Óskar fjallar um vísitölumælingu á Íslandi sem hann heldur því fram að sé alvarlega bjöguð. Á þessari vísitölu byggir svo útreikningur verðtyggingar. Það er náttúrlega býsna skuggalegt, samkvæmt þessu erum við með kerfi sem er mjög umdeilt – og svo virkar það ekki einu sinni almennilega.
Það væri svosem eftir öðru í þessu landi.
Viðtalið við Svein Óskar er hérna, þökk sé Láru Hönnu:
Ein glæra úr málflutningi Sveins Óskars segir meira en þúsund orð. Hún lýsir tilflutningi fjármagns frá einstaklingum til lánastofnana síðustu árin.
Eins og sjá má er eigið fé í íbúðarhúsnæði 62 prósent árið 1997, 67 prósent árið 2005 þegar húsnæðisbólan stendur sem hæst, en það er komið niður í 49 prósent árið 2010. Bankar og lánastofnanir eiga semsagt meirihlutann í íbúðarhúsnæði á Íslandi – og eignir almennings hafa rýrnað í samræmi við það. Þið getið smellt á myndina til að stækka hana.