Það er ekki ofmælt að Gustavo Dudamel, sá sem stjórnar Gautaborgarsinfóníunni í Hörpu á sunnudagskvöld, sé stjarna. Hann er ein skærasta stjarnan á festingu klassískrar tónlistar í dag.
Hann er kornungur, aðeins þrítugur, þykir laglegur og stjórnar með miklum tilþrifum. Hefur stundum verið líkt við rokkstjörnu. Dudamel er frá Venesúela, kannski búast menn ekki við háum standard á klassískri tónlist í því landi, en það er öðru nær – þeir hafa kerfi tónlistarmenntunar sem kallað er einfaldlega El Sistema. Úr því er komin hin fræga æskulýðshljómsveit sem kennd er við Símon Bólivar, þjóðhetju landsins. Dudamel hefur verið listrænn stjórnandi hljómsveitarinnar frá því hann var aðeins nítján ára. Hann er líka aðalstjórnandi í Gautaborg og tónlistarstjóri fílharmóníuhljómsveitarinnar í Los Angeles.
Dudamel er semsagt tónlistarséní sem verður gaman að sjá í Hörpu. Hann stjórnar meðal annars 6. sinfóníu Tsjaikovskís og klarinettkonsert Mozarts – ég verð samt að viðurkenna að ég hefði kosið að heyra hann glíma við aðeins þyngri efnisskrá – Mahler, Beethoven?