Það er merkilegt að hugsa til þess að norrænir menn skyldu eiga nöfn yfir svo fjarlæga staði sem Istanbul – sem þá hét Konstantínópel.
Þeir kölluðu borgina Miklagarð, en hina frægu og fornu kirkju sem hér stendur og var löngum stærsta hús í heimi kölluðu þeir Ægisif.
Hér var líka mesti leikvangur heims, kallaður Hippodrome. Þar voru haldnar veðreiðar og gerðust oft dramatískir atburðir. Leikvangurinn var 480 metra langur og 117 metra breiður. Oft urðu harðvítug átök milli fylgismanna liða sem báru mismunandi liti, og urðu blóðsúthellingar vegna þess.
Leikvanginn kölluðu norrænir menn Paðreim. Það er skemmtilegt orð.
Þegar norrænir menn komu hingað var borgin sú stærsta í heimi. Hún er ekki síst merkileg vegna þess að hún hefur verið stórborg samfleytt frá því hún var lýst höfuðborg Austur-rómverska ríkisins – síðar Býsantínska veldisins – árið 330 e. kr.
Grikkir kalla borgina enn Konstantínópel. Tyrkir unnu hana árið 1453, en Grikkir bjuggu þar áfram. Á síðustu öld hröktust þeir flestir þaðan burt í miklum þjóðflutningum. Það er skarð fyrir skildi, eitt sinn var borgin full af Grikkjum, Armenum og gyðingum auk Tyrkjanna – en nú er íbúasamsetningin nokkuð einsleit hvað þjóðerni varðar.
Annað nafn yfir borgina á grísku er einfaldlega polis – sem þýðir einfaldlega „borgin“. Svo þótti þetta merkur staður, á þeim tíma var Aþena með sína fornu frægð vart annað en þorp.
Það er svo pínu kaldhæðnislegt að orðið Istanbul er líka komið úr grísku og þýðir „í borgina“ eða „inn í borgina“ (eis tin polin).
Þetta er ótrúleg risaborg á mótum austurs og vesturs. Hún er á fleygiferð, það hefur verið mikill uppgangur í Tyrklandi – og ég sé talsverðar breytingar síðan ég var hérna fyrir fimm árum. Sum hverfi gætu þess vegna verið í borgum miklu vestar í álfunni, þar drekkur fólk áfengi og er mjög vestrænt í háttum. Önnur hverfi eru meira á valdi íslams, þar eru konur huldar frá hvirfli til ilja. Víða sér maður ríkidæmi eins og í hverfinu Nisantasi þar sem eru verslanir helstu tískuhönnuða, lúxusbifreiðar og konur með rándýra skartgripi og handtöskur – að öðrum stöðum sér maður neyð sem sker í augu.
Hér eru úthverfi þar sem fólk býr í kofum, margt af því hefur verið að flykkjast úr sveitum landsins síðustu árin. Það er talsverða atvinnu að fá, en launin eru lág. Svo eru aðrir sem reyna að draga fram lífið á harki og sníkjum. Íbúafjöldinn er meira en þrettán milljónir og hefur þrefaldast á síðustu þrjátíu árum.
Við sáum lítinn dreng niður við Bosporussund í gær sem sat í tröppum og var greinilega alvarlega veikur. Hvort það var af hungri eða einhverju öðru veit maður ekki. Hann var að reyna að selja nokkra pakka af munnþurkum, en sat í hnipri og horfði tómlega fram fyrir sig. Það er gríðarlegur manngrúi hér og lífsbaráttan hörð fyrir marga.