Í nokkuð yfirborðskenndri úttekt á íslensku efnahagslífi sem birtist í Fréttatímanum í dag er að finna einn punkt sem vekur athygli. Þarna eru þrír hagfræðingar, Hreiðar Már Guðjónsson, Ársæll Valfells og Guðmundur Ólafsson, auk Andra Snæs Magnasonar og Stefáns Einars Stefánssonar að spá í „raunhæfa“ efnahagsáætlun fyrir Ísland.
Það sem er helst athyglisvert er að finna í kaflanum um gjaldeyrismál. Þar stendur:
„Sú mynt sem endurspeglar helst íslenskt atvinnulíf er Kanadadollar en Kanada eygir langt hagvaxtarskeið og myntin mun verja kaupmátt þeirra sem hana nota. Möguleikinn á upptöku þeirrar myntar hefur verið kynntur stjórnvöldum í Ottawa. Bæði fjármálaráðuneyti Kanada og Bank of Canada eru mjög jákvæð í garð aðgerðarinnar.“
Nú er þetta eitthvað sem maður hefur ekki heyrt um – og væri gaman að fá að vita meira. Hverjir töluðu við ráðamenn í Kanada?
Það er Heiðar Már sem hefur haft mikinn áhuga á einhliða upptöku annarrar myntar – sem margir telja óframkvæmanlega. Hann er hins vegar maður með mikið sjálfsálit og hikar ekki við að tala við stórmenni í útlöndum, eins og sást þegar hann ræddi um árás á krónuna við George Soros og Bruce Kavner.
Heiðar skýrði það reyndar út síðar – þegar DV fjallaði um málið – að þetta hefðu frekar verið einhvers konar mannalæti í sér.