Vinstri græn ásamt Lilju, Ásmundi og Atla leggja fram tillögu um úrsögn Íslands úr Nató.
Ég hef áður sagt að það sé ekkert óeðlilegt að látið sé á þetta reyna. Íslendingum var troðið inn í Nató á sínum tíma með afskaplega ólýðræðislegum hætti. Líklega var þá ekki meirihluti þjóðarinnar fyrir inngöngunni.
Nató var í Kalda stríðinu hernaðarbandalag vestrænna þjóða. Hafði vissulega sína þýðingu. Síðarmeir skapaðist meirihluti hér fyrir verunni í bandalaginu, en deilurnar við inngönguna sviðu alltaf. Margir upplifðu hana sem svik.
Nú hefur Nató söðlað um. Bandalagið hefur lengi verið í leit að tilgangi sem hvarf við fall kommúnismans. Í staðinn er bandalagið farið að stunda hernað í Afganistan og Líbýu. Íslendingar hafa aldrei verið spurðir um hvort þeir vilji taka þátt í slíku.
Það er ólíklegt að þessi tillaga fái mikið fylgi á þingi, og kannski kemst hún seint á dagskrá, en hún er í hæsta máta eðlileg.