Lars Christiansen, danskur hagfræðingur, hefur þótt hafa mikla vigt í íslenskri umræðu síðan hann spáði fyrir um efnahagshrunið hér.
Lars birtist í viðtali í Frjálsri verslun í grænum sokkum, með grænt bindi og grænan klút í brjóstvasanum.
Hann segir að einkavæðing íslensku bankanna hafi ekki verið mistök.
Og jú, vissulega má færa rök fyrir því að bankar á Íslandi voru settir í einkahendur furðu seint – líka miðað við það sem gerðist í hinni sósíaldemókratísku Skandinavíu. Þar var reyndar nokkur hefð fyrir stórum einkabönkum, sem minna var af hér.
En þegar bankarnir voru loks einkavæddir á Íslandi var það gert með hefðbundnu klíkusniði þar sem þessum gæðum var útdeilt til manna sem voru handvaldir af valdamönnum þess tíma. Í siðuðu samfélagi myndi slíkt teljast glæpsamlegt.
Og fimm árum síðar voru þessir bankar komnir rækilega á hausinn – og drógu þjóðarbúið með ofan í djúpið.