Það er kannski ekki ástæða til að deila mikið um hvort gera eigi Laugaveg að göngugötu.
Á sumardögum er sjálfsagt að loka götunni fyrir bílaumferð og helst niður allt Bankastrætið. Og það má líka gera þetta fyrir jólin.
Kvosin var mjög skemmtileg í góða veðrinu síðasta sumar þegar Austurstræti og Pósthússtræti var lokað fyrir bílum. Fólk gekk þar um eða hjólaði og naut lífsins.
Á köldum vetrardögum eða regnvotum haustdögum er minni ástæða til að Laugavegurinn sé göngugata. Þá er yfirleitt fátt fólk á ferli þar.
Þannig að það þarf einfaldlega að búa svo um hnútana að hægt sé að loka götunni fyrir bílum og opna aftur.
Tvennt mætti svo gera til að bæta umhverfið á þessu svæði:
Það er óhemju draslaralegt um að litast í bænum. Merkilegt hvað Íslendingar henda af rusli og sígarettustubbum á göturnar. Svonalagað sést varla í vestrænum borgum lengur.
Svo er það stöðumælavarslan sem er löngu komin úr öllu hófi. Stöðumælar eiga ekki að vera tekjulind – enda held ég að þeir séu það ekki neitt að ráði. Tilgangur þeirra er að tryggja bætt aðgengi að borginni þannig að sömu bílarnir geti ekki raðað sér í stæði og verið þar allan daginn.
Nú er nánast eins og það fáa fólk sem hættir sér í Miðbæinn á bílum sæti ofsóknum, slík er harkan í stöðumælainnheimtunni. Á meðan getur fólk lagt ókeypis í stæði við Smáralind og Kringluna.
Það þarf að finna mildilegri aðferðir til að standa að þessu. Stöðumælar eru til þess að greiða fyrir umferð um borgina en ekki sérstakur skattstofn.