Ég held að engum detti í hug að Höskuldur bankastjóri í svonefndum Arionbanka eða Birna bankastýra í Íslandsbanka séu klárari en annað fólk.
Þeirri goðsögn var dreift á tima útrásarinnar að bankafólk væri svo rosa klárt að því dygðu ekkert annað en ofurlaun. Annars myndi bankafólkið jafnvel fara í toppstöður í útlöndum og fá ennþá hærra kaup.
Botnin datt úr þessu í október 2008. Það mun enginn trúa þessu framar.
En bankarnir eru byrjaðir aftur. Það er verið að gíra kerfið upp aftur.
Laun bankastjóranna eru keyrð upp um tugi prósenta. Það er ekki af því þeir séu svo klárir, nei, ástæðan er stéttarhagsmunir.
Um leið og bankastjórarnir hækka í launum geta aðrir farið að gera tilkall til svipaðra launa, þetta virkar eins og greiði á móti greiða, bankaráðsmennirnir og stjórnendurnir sem eru aðeins lægra settir en eru á leiðinni upp.
Svona heldur þetta kerfi áfram, þar til við erum loks aftur komin í sömu spor og haustið 2008.