Okkar eigin Osló er skemmtileg og alþýðleg kómedía úr íslenskum samtíma.
Það er til marks um kraft í menningunni – og kvikmyndagerðinni – að svona myndir skuli vera framleiddar.
Myndin lýsir fólki sem er kunnuglegt og aðstæðum sem hvert og eitt okkar getur sett sig í. Ég segi að hún sé alþýðleg, en það er í bestu merkingu þess orðs. Hingað til er það Þráinn Bertelsson sem hefur komist næst því að búa til manneskjulegar myndir af þessu tagi, ég á við bíómyndina Magnús og sjónvarpsþáttaröðina Sigla himinfley.
Þetta er skemmtilega leikin mynd og persónurnar verða hugstæðar – hinn óframfærni verkfræðingur sem Þorsteinn Guðmundsson leikur og óheppna bankakonan sem Brynhildur Guðjónsdóttir leikur.
Laddi er svo alveg stórkostlegur í hlutverki harmonikkuleikarans Havels. Maður skellir upp úr í hvert skipti sem hann birtist.
Þessi mynd á ekki eftir að sigra heiminn – enda held ég ekki að það tilgangurinn með henni – en ég er illa svikinn ef hún verður ekki feiki vinsæl á heimamarkaðnum. Maður gæti líka hugsað sér að sjá eitthvað af þessu tagi í sjónvarpi.