Það er deilt um niðurskurð í skólum. Við gengum í gegnum tímabil á Íslandi þegar skatttekjur flóðu í kassa ríkis- og sveitarfélaga – á slíkum tíma hafa menn tilhneigingu til að gerast eyðslusamir. Ýmsir vöruðu við því að ef harnaði í ári myndu skatttekjurnar minnka og ekki duga til að standa undir þenslunni.
Jón Gnarr borgarstjóri skrifar grein um niðurskurðinn í Fréttablaðið í gær.
Það er einkum tvennt sem er athyglisvert.
Annars vegar bendir hann á að nú séu að koma inn í skólakerfið stórir árgangar af börnum. Hann segir að á næsta ári muni 1900 börn bætast við í leikskólana en ekki 1500 eins og áður.
Hins vegar eru þau umhugsunarverð þessi orð Jóns:
„Segjum sem svo að það væri ekkert skólakerfi í Reykjavík og að við fengjum það verkefni að byggja það algjörlega upp frá grunni. Myndum við þá byggja 40 skóla og 100 leikskóla? Ég held ekki. Við þurfum að sníða okkur stakk eftir vexti.“
Menn geta svo haldið áfram að deila um niðurskurðinn – en við skulum hafa umræðuna málefnalega. Það er engin óskastaða sem Ísland lenti í eftir 2008.