Þeir eru rosa herskáir á Bændaþingi og einna lengst gengur Jón Bjarnason landbúnaðarráðherra sem talar um mútur frá Evrópusambandinu.
En bændaforystan hefur fundið sér utanaðkomandi óvin og blæs í mikla herlúðra. Undirliggjandi í málflutningnum er að kerfið innan ESB sé alvont, en íslenska kerfið sé bara ansi gott og það beri að vernda með kjafti og klóm.
Staðreyndin er hins vegar sú að það er þörf á endurbótum í íslenska landbúnaðarkerfinu hvort sem við göngum í ESB eða ekki.
Þröstur Haraldsson, fyrrverandi blaðamaður á Bændablaðinu, skrifaði grein í Fréttablaðið nýlega þar sem hann fer yfir þessi mál og þá hugmynd að ESB vilji íslenskan landbúnað feigan.
Meðal þess sem Þröstur bendir á er að bændabýlum á Íslandi hafi fækkað alveg jafn mikið á Íslandi og í Finnlandi.
Hann skrifar meðal annars:
„Þetta hlýtur að vekja athygli íslenskra bænda sem merkilegt nokk hafa upplifað svipaða eða jafnvel öllu meiri fækkun og stækkun býla sinna á undanförnum árum. Það er svolítið erfitt um samanburð vegna ólíkra aðferða við tölfræðisöfnun en sé litið í Hagtölur landbúnaðarins kemur í ljós að þeim bændabýlum sem hafa greiðslumark í sauðfjárbúskap og/eða mjólkurframleiðslu fækkaði um nánast sömu prósentutölu – rúmlega 30% – og finnskum bændabýlum á árabilinu 1994 til 2004, fyrsta áratugnum eftir að Finnar gengu í ESB. Hins vegar kemur þessi breyting misjafnt niður á búgreinum og sé litið til mjólkurframleiðslu þá hefur fækkun framleiðenda orðið enn meiri hér á landi. Kúabú á Íslandi voru um 1.700 árið 1993 en um þessar mundir er mjólk framleidd á innan við 700 bæjum. Það er um það bil 60% fækkun. Kúnum hefur fækkað en þær framleiða meiri mjólk. Í Finnlandi hefur hægt á fækkun bændabýla en hér á landi blasir við að það er lítill grundvöllur fyrir öllum þeim sauðfjárbúum sem hér eru, nema sem aukagetu meðfram öðrum rekstri eða starfi bænda.“