Ég gekk niður að gömlu höfnini í Kaupmannahöfn í gær. Það var dimmt, en fallegt um að litast. Kalt í veðri. Höfnin var ísi lögð. Það var tilkomumikil sjón.
Sín hvoru megin hafnarinnar blasa nú við stór menningarhús sem hafa verið reist á síðustu árum. Óperan og Sjónleikahúsið.
Ég hafði ekki séð þessi hús áður, en mér sýndist þau bæði vera falleg – þau taka sig vel út þarna við höfnina. Að minnsta kosti í náttmyrkrinu.
Maður tekur litla ferju frá Nýhöfninni yfir að Óperuhúsinu, ég horfði á hvernig báturinn öslaði í gegnum ísinn.
Kaupmannahafnarbúar hafa á síðustu árum byggt þrjú stór hús undir sjónlistir og tónlist, Óperuna, Sjónleikahúsið og Tónleikahöll útvarpsins.
Allar hafa þessar framkvæmdir verið umdeildar, ekki síst Óperan. Það hús var gjöf frá auðkýfingnum A.P. Möller.
En vandinn er sá að Möller gaf ekki fé til að reka húsið. Menningin í Kaupmannahöfn er að sligast undan þessum húsum. Við bætist hið gamla Konunglega leikhús við Kóngsins nýjatorg þar sem áður voru flutttar óperur.
Einhver stakk meira að segja upp á að loka gamla húsinu, en það þóttu helgispjöll.
En afleiðing þessa offramboðs á menningarhúsnæði er sú að miðaverð hefur hækkað – það er orðið rándýrt að fara í Óperuna – og svo hefur ekki verið annað til ráðs en að fækka sýningum, eins mótsagnakennt og það er.