Við andlát manns eins og Thors Vilhjálmssonar veit maður ekki alveg hvað maður á að segja. Kannski nær maður að henda reiður á minningunum um hann og skáldskap hans og skáldskapnum í kringum hann á næstu dögum. Ég er samt ekki viss – Thor var mörg bindi.
Ég sá á Facebook þessa tilvitnun í bókina Stríð og söngur, það var viðtalsbók við sex rithöfunda sem Matthías Viðar Sæmundsson skrifaði árið 1985. Þetta er úr kaflanum um Thor.
„Ég sé fyrir mér garð fullan af undrum þar sem ég lifði líkt og í draumi og talaði við litla fugla sem flögruðu umhverfis mig, nýlentir eða í þann veginn að hefja sig til flugs…Ég lít á það sem heilaga skyldu að berjast gegn dauðanum og fyrir lífinu. Þó svo ég viti að eitt sinn skal hver deyja.“
Ég ætla að leyfa mér að birta þessa glaðlegu mynd sem var tekin í Bankastrætinu fyrir nokkrum árum og ég á hérna í tölvunni minni.