Ég var mikið í Kaupmannahöfn þegar ég var ungur maður – svona fram til tvítugs. Þá lágu einhvern veginn allar leiðir þangað. Kaupmannahöfn var ennþá aðalborgin í huga Íslendinga, staðurinn sem þeir komu á fyrst þegar þeir fóru til útlanda. Þetta var á þeim tíma að enn var auglýst að ný dönsk blöð væru komin í bókabúðirnar í Reykjavík, Hjemmet og Familije Journal. Maður las Andrés Önd á dönsku, þegar ég útskrifaðist þaðan gerðist ég um tíma kaupandi blaðs sem hét Vi unge og fjallaði um popptónlist og kvikmyndir með smá ívafi af kynfræðslu.
Eftirminnilegasta efnið í Vi unge eru samt auglýsingar frá búð sem verslaði með plaköt. Þar mátti finna innan um agnarlitlar myndir af nöktum konum. Þetta var eina efni af því tagi sem var í boði á mínu heimili þegar ég var þrettán ára.
Jú, svo var það Æskan sem maður fékk senda heim þótt maður vissi ekki að maður væri lengur áskrifandi – þar voru einatt myndir af hamingjusömum börnum sem höfðu unnið ferðir í Tívolí. Maður öfundaði þessi börn, tók þátt í verðlaunagetraunum en vann aldrei neitt.
Kaupmannahöfn var þegar ég kom þangað fyrst afskaplega frjálsleg og hippísk borg. Leifar af klámbylgjunni upp úr 1970 voru að hverfa – nú sést ekki tangur né tetur af „live shows“ sem voru þá víða um bæinn. Ungt fólk hjólaði á gömlum sendlareiðhjólum, með flaksandi lokka, í Afganpelsum og klossum.
Maður fann sig ágætlega í þessu umhverfi, þótt maður næði einhvern veginn ekki að vera eins líbó og Danirnir. Íslendingar hópuðust á þessum árum til Danmerkur til að stunda hassreykingar – mér fannst hass alltaf vont og í raun höfðuðu meira til mín sögur af ungum íslenskum námsmönnum sem fóru utan á tímanum þegar tók hálft ár fyrir bréf að berast heim, lögðust í drykkjuskap, ollu fjölskyldu sinni hroðalegum vonbrigðum og drukknuðu oftar en ekki í síkjunum.
Maður skimaði stundum eftir því hvort Jónas Hallgrímsson væri kannski enn að staulast um borgina.
Svo hætti ég að fara til Kaupmannahafnar, hef varla komið í borgina í þrjátíu ár. Fyrr en ég er staddur hér nú. Mér sýnist hún hafa breyst mikið. Hún er miklu efnishyggjulegri. Ekki eins notaleg. Kannski var ég að leita að sjálfum mér eins og ég var einu sinni í kvöld – en fann auðvitað ekki.
Nema bara einhverja svipi.
Samt eru ennþá til staðir sem ég þekki. Til dæmis kínaveitingahúsið Shanghai, þar borðaði ég kínamat á veitingahúsi í fyrsta skipti (sökum tengsla fjölskyldu minnar við Kína var matur þaðan oft á borðum heima í æsku minni). Ítalski staðurinn með chiantiflöskunum í loftinu í Fiolstræde. Þar fékk ég pítsu í fyrsta sinn.
Þá var hvorki kínamat né pítsur að hafa á veitingahúsum á Íslandi.
Svo settist ég og fékk mér kaffi á Café Sommersko. Þegar ég var fyrst í Höfn var þetta nýr staður, þótti afskaplega flottur, í frönskum stíl. Við sátum þar oft ég og góður vinur minn sem er látinn, Jón Þór Jóhannsson, sérstakur öndvegismaður.
Staðurinn er ennþá jafn flottur, kannski flottari, því nú fattar maður að hönnun hans er tímalaust ólíkt mörgu sem maður sér í borginni. En ég var eini gesturinn þar fyrir utan þrjár eldri konur sem hafa kannski verið ungar þegar Sommersko opnaði fyrst 1976.