Í hvert sinn sem snjóa leysir er hundaskítur fyrir utan hliðið hjá okkur. Þar eru bílastæði og pínulítill skemmtigarður, jæja, túnbleðill með nokkrum trjám og bekk. Fólk kemur stundum á þennan stað til að reykja.
Þessa dagana snjóar oft býsna mikið, svo gerir blota – og þegar snjórinn er farinn kemur hundaskíturinn í ljós.
Við höfum nágrannna okkar einn grunaðan um þetta, hann býr hérna nokkrum götum frá, fer út að ganga með hundinn á kvöldin og er oft í glasi.
Þ.e. eigandi hundsins er í glasi, ekki hundurinn.
Af þessu eru svosem ekki stórkostleg óþægindi, nema það getur verið leiðinlegt að stíga ofan í hundaskít.
En maður býr í miðborg og sættir sig við ýmislegt.
Við búum til dæmis í götu þar sem til skamms tíma voru fjögur opinber bílastæði. Öllum hinum er ráðstafað til einkanota.
Síðasta sumar fækkaði bílastæðunum um tvö. Tveimur var breytt í stæði fyrir fatlaða.
Það er svosem gott og blessað, en við þetta jókst bílastæðavandinn í götunni til nokkurra muna.
Svo fór maður aðeins að fylgjast með þessu, og nú, sirka 9 mánuðum síðar, hefur það aldrei gerst að fatlaður einstaklingur hafi lagt í þessi stæði.
Eða neinn annar – einu sinni hefur sést bíll í þeim. Hann var greinilega í órétti, var lagt furðulega skakkt og hvarf eftir skamman tíma.
Við höfum spurt borgina hvort standi ef til vill til að athuga þetta – og þá er okkur sagt að það verði í höndum stöðumælavarða sem eira engu hér á svæðinu.
Því engir borgarstarfsmenn eru jafn ötulir og stöðumælaverðirnir og eiginlega furðulegt að ekki skuli vera myljandi hagnaður af starfseminni. En svo er víst ekki – enda eru þetta aðallega sömu fáu bílarnir sem álpast niður í miðbæ sem verið er að sekta.
Aðrir hafa vit á að nýta sér ókeypis stæði við Kringluna, í Smáralind eða í Faxafeni.