Þetta sorpbrall borgarinnar er mjög sérkennilegt.
Ber þess vott að eitthvað kerfislið sé alveg búið að missa sjálfstjórnina.
Um daginn sá ég menn með málbönd á ferðinni í Vesturbænum, þeir voru að reikna út fjarlægð frá götu að öskutunnum við hvert hús.
Jú, fólk getur flutt tunnurnar sínar á annan stað, semsagt þannig að þær verði ekki fjær leið öskubílsins en 15 metrar. En til þess að gera það þarf það að fá leyfi frá byggingafulltrúa.
Það getur líka ýtt öskutunnunum sjálft í átt að öskubílnum þá daga sem sorpið er hirt.
Móðir mín fékk um daginn bréf þar sem henni er gerð grein fyrir þessu. Henni var sagt að hún gæti ýtt tunnunum í átt að sorpbílnum.
Mamma er 81 árs.
Hún þarf að aka tunnunum sirka þrjátíu metra til að komast nær sorpbílnum. Ef aðrir íbúar í bakgarðinum þar sem sorptunnurnar eru gera hið sama er öruggt að umferð um svæðið teppist.