fbpx
Þriðjudagur 26.ágúst 2025
Eyjan

Nokkur orð um Thor

Egill Helgason
Föstudaginn 11. mars 2011 21:54

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það var mikið fjölmenni við útför Thors Vilhjálmssonar í dag. Thor var vinmargur maður og vinsæll. Hann fór víða og talaði við margt fólk.

Við ræddum það í Kiljunni um daginn að það þyrfti að gera eldri bækur Thors aðgengilegri. Í dag sá ég í bókabúð að búið er að gefa út Fljótt fljótt sagði fuglinn í röðinni Íslensk klassík. Bókin kom fyrst út 1968 og er stór varða í módernismanum íslenska.

Thor var mikill eldhugi og hraustmenni, mér kom í hug vísa Þóris jökuls úr Sturlungu þegar ég frétti andlát hans og að hann hefði, sjálfum sér líkur séð kvikmynd eftir Einsenstein kvöldið sem hann dó og farið í likamsrækt.

Upp skaltu á kjöl klífa,
köld er sjávar drífa.
Kostaðu hug að herða,
hér muntu lífið verða.
Skafl beygjattu, skalli
þó skúr á þig falli.
Ást hafðir þú meyja,
eitt sinn skal hver deyja.

Kvæðið var flutt við útförina í dag.

En jafnframt því að vera hraustur og stór í sniðum hafði hann viðkvæma og kvika lund. Hann gat snöggreiðst, ég man að eitt sinn var hann ósáttur við mig – þá var eins og ég fyndi einhvern þunga yfir bænum. Svo sættumst við fljótt og það var alltaf glatt á hjalla þegar við hittumst. Eitt sinn vann ég hjá Listahátíð. Þá fluttum við inn hið fræga leikhús Thadeusz Kantors frá Kraká í Póllandi. Það hafði sýnt í sextíu og fimm löndum. Það var dræm aðsókn á fyrstu sýninguna í Reykjavík. En Thor var hrifinn. Hann tók málin í sínar hendur, skrifaði í blöð, talaði í útvarp – ég lýg því ekki að það var hann sem troðfyllti Borgarleikhúsið þrjú kvöld í röð með þessu áhlaupi sínu.

Síðast tók ég við hann viðtal í stuttu fyrir jól vegna heimildarmyndar Erlendar Sveinssonar um göngu hans til Santiago de Compostela. Þá skynjaði ég að aðeins var dregið af Thor; það var í fyrsta skipti að mér fannst hann vera gamall.

Einn er sá þáttur í höfundarstarfi hans sem má ekki gleymast. Það eru þýðingarnar. Hin mikilverðasta er þýðing hans á La Condition Humaine, Hlutskipti manns, eftir André Malraux – einu höfuðverki heimsbókmenntanna á 20. öld, bók sem fjallar um hrausta og hugaða menn á byltingartímum í Kína. Þetta er frábær þýðing á stórbrotinni skáldsögu. Hann þýddi líka dásamlegt safn eftir Marguerite Yourcenar sem nefnist Austurlenskar sögur. Þetta eru þýðingar úr frönsku, og fyrir þær – og skáldverk eftir hann sem hafa verið þýdd á frönsku – hlaut Thor heiðursorðu frá franska ríkinu í fyrra.

Úr ítölsku þýddi hann Nafn rósarinnar eftir Umberto Eco og úr spænsku Hús andanna eftir Isabel Alliende.

Hann var ærinn starfi þessa jöfurs. Það hefur verið gott og lærdómsríkt að kynnast honum og verkum hans. Hann skrifaði ekki bara skáldskap og þýddi, heldur var hann líka bókmenntalegur uppalandi í greinum sínum og þá gleymir maður ekki kvikmyndunum, það var Thor sem stóð fyrir stofnun kvikmyndahátíðar í Reykjavík á sínum tíma og var eins og andlegur faðir hennar. Kvikmyndin og ritlistin eru samsíða í verkum Thors, hann er að sumu leyti kvikmyndaskáld í texta – rétt eins og erlendir höfundar sem voru samtíðarmenn hans, Alain Robbe-Grillet og Marguerite Duras.

ThorVilhjalmsson-1

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 4 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Ætlum að opna fleiri verslanir
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?

Svarthöfði skrifar: Eftirlit í þágu milliliða – hver fylgist með eftirlitsmönnunum?
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð

María Rut Kristinsdóttir skrifar: Sítengd og stimpluð
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Rangt gefið þegar heildsöluverð til hinna minni er hærra en smásöluverðið hjá þeim stóru

Gréta María Grétarsdóttir, framkvæmdastjóri Prís: Rangt gefið þegar heildsöluverð til hinna minni er hærra en smásöluverðið hjá þeim stóru
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí

Nína Richter skrifar: Miðaldra konur í hörtóga á Balí
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Stjórnarskráin og ESB
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi

Svarthöfði skrifar: Öfugmælavísa ritstjórans – niðurlæging stjórnarandstöðunnar tekur engan endi
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni

Thomas Möller skrifar: Meiri bjartsýni – minni svartsýni