Íslenska krónan hefur sjaldan verið veikari en einmitt nú. Hún hefur veikst um 6 prósent síðasta hálfa árið. Gengi evrunnar hefur hækkað um tíu krónur. Það er 164 krónur í dag.
Sökum þessa er varla furða að verðbólgu gæti í samfélaginu. Það verður ekki bara hægt að kenna kjarasamningum um.
Hitt er svo að við búum við gjaldeyrishöft. Það er í raun Seðlabankinn sem ákveður gengi krónunnar. Því er handstýrt. Nú þykir henta að hafa krónugengið svona lágt til að tryggja afgang af utanríkisviðskiptum og halda niðri neyslu innanlands.
Það er svo aftur spurning hvernig krónan er metin á frjálsum markaði – því sem nú er kallað aflandsmarkaður. Viðskiptin eru reyndar sáralítil en þar hefur verð evrunnar verið á bilinu frá 220 krónum upp í 270 krónur.
Einhver kynni að gera því skóna að krónan ætti að styrkjast þegar ferðamenn streyma hingað í sumar með gjaldeyri. Það er þó sýnd veiði en ekki gefin.