DV segir frá ræðu sem Bryndís Hlöðversdóttir flutti. Þar deilir hún á viðhorf Jóns Steinars Gunnlaugssonar til lögfræðinnar – talaði um lagatækni í því sambandi.
Kjarni málsins er sá að lög eru ekki vísindi, þau eru sett af mönnum og þau breytast í tímans rás. Eitt sinn var hægt að túlka lög með þeim hætti að konum sem gerðust sekar um hórdómsbrot skyldi drekkt – nú telst slíkt mikil fásinna. Þó eru lög af því tagi notuð í sumum ríkjum veraldarinnar.
Þar sitja dómarar, teljast virðingarmenn, og útdeila dómum.
Við gætum heldur ekki hugsað okkur að láta tölvur dæma. Það væri vissulega hægt að mata tölvur með lagasafninu og svo málavöxtum, en það er samt mannlegur þáttur sem dómarar þurfa að taka tillit til. Þess vegna viljum við að dómarar séu grandvarir, skilningsríkir og helst vitrir.
Við höfum séð ótal bíómyndir þar sem koma fyrir dómarar sem hafa þessa eiginleika – en svo eru líka til dæmi um dómara sem eru algjörir bókstafsmenn eða dómara sem eru bara senditíkur yfirvalda.
DV vitnar í Bryndísi sem sagði í ræðu á Bifröst:
“Hvar lærir þessi hæstaréttardómari slíka tækni – að búa til eina formúlu fyrir „lögfræðilegt mat“? Getur einhver háskóli kennt nemanda slíka tækni? Ég leyfi mér að efast um að það sé hægt að læra slíka formúlu. Lögin svara einfaldlega ekki öllum spurningum sem túlkandinn stendur frammi fyrir og jafnvel ekki lögskýringargögnin heldur. Og þá er það nú oft svo að á mat túlkandans reynir – en þá skiptir miklu máli að hann hafi tileinkað sé gagnrýna hugsun, þá víðsýni og skilning á mannlegu samfélagi sem þarf að hafa til að geta komist að skynsamlegri niðurstöðu. Auðvitað eftir lögfræðilegri aðferð, en hann sleppur sjaldnast við matið á einhverju stigi. Það að láta sem hinn mannlegi þáttur í matinu sé ekki til – er blekking og ekki neitt annað en blekking,”