Marinó Gunnar Njálsson skrifar þarfa ádrepu þar sem hann deilir á þá söguskoðun – sem er búið að ýta á flot og er ætlað að verða viðtekin sannindi – að það hafi verið einhver ógurleg stjórnviska hjá yfirvöldum á Íslandi að láta bankana fara í þrot. Eins og Marinó segir er það öðru nær:
Marinó skrifar meðal annars:
„Það er bull að bönkunum hafi verið leyft að falla. Hér rembdust ríkisstjórn Geirs H. Haarde og Seðlabanki Íslands undir stjórn Davíðs Oddssonar eins og rjúpan við staurinn í hátt í ár við að halda þessum svikamyllum gangandi. Leyfðu þeim á meðan að mergsjúga almenning og fyrirtæki í landinu. Bankarnir féllu þegar úrræði stjórnvalda og Seðlabanka þrutu. Þegar það kom í ljós að svikin og prettirnir voru svo mikil að þeim var ekki bjargað. Eftir að stjórnendur og eigendur bankanna höfðu ákveðið að það skipti meira máli að bjarga eigendunum og vildarvinum en ekki bönkunum sjálfum. þeir féllu út af meðvirkni stjórnvalda, Seðlabanka og Fjármálaeftirlits sem köstuðu sér fyrir fætur fjárglæframönnunum í hvert sinn sem þeir opnuðu munninn og vegsömuðu þá, fóru með fagurgala um grundir til að lýsa snilld þeirra. Þeir væru misskildir snillingar. Hefðu fundið töfrauppskriftina sem reyndari bankamenn kunnu ekki vegna þess að þeir væru ekki nægilegir snillingar.
Að Ólafur Ragnar Grímsson komi núna fram í erlendum fjölmiðlum og segi að við hefðum leyft bönkunum að falla er að núa salti í sár almennings sem þarf að bera stríðskostnaðinn á herðum sér. Stjórnvöld leyfðu þeim vissulega ýmislegt. Svo sem að vaða yfir almenna viðskiptavini sína á skítugum skónum, að tæma sjóði Seðlabankans, brjóta lög og reglur hægri vinstri, að fella krónuna, að ræna eigin banka innan frá og svona mætti lengi telja. En að ein vanhæfasta ríkisstjórn Íslandssögunnar, ríkisstjórn Geirs H. Haarde, hafi leyft bönkunum að falla er fáránlegasta söguskýring sem ég hef heyrt og sýnir að annað hvort er Ólafur Ragnar ekki í neinum tengslum við raunveruleikann eða að hafin er áróðurherferð á alþjóðavísu til að fela fyrir umheiminum vanhæfi allra þeirra sem áttu að gæta þess að bankarnir gerðu ekki það sem þeir gerðu. Hvítþvotturinn er hafinn, moka á yfir spillinguna og vanhæfið. Ætli þetta verði líka vörn Geirs H. Haarde fyrir Landsdómi.“