Skoðanakönnun um hvort Ólafur Ragnar Grímsson eigi að bjóða sig fram aftur sýnir að það er langt í frá að hann geti verið viss um að ná endurkjöri.
Þá verður reyndar að taka fram að aldrei í sögunni hefur sterkur frambjóðandi farið gegn sitjandi forseta. Það hefur beinlínis verið talinn dónaskapur. Á því gæti þó orðið breyting, nú þegar forsetinn er orðinn svo virkur í stjórnmálum.
Könnunin segir að um helmingur kjósenda vilji að Ólafur Ragnar bjóði sig fram aftur. Þetta er á tíma þegar hann hefur verið mjög áberandi.
Það er líka greinilegt að fylgið við hann er óstöðugt. Það má gera því skóna að hann hafi skipt um fylgismenn. Þannig nýtur hann núorðið mests fylgis meðal kjósenda Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, en minna fylgis meðal kjósenda Samfylkingar og Vinstri grænna. Þessar hreyfingar, sem eru nánast eins og pólskipti, benda til þess að öflugur frambjóðandi gæti kannski fellt forsetann ef hann byði sig fram í fimmta sinn.