Við vorum á Siglufirði í vikunni. Tókum upp efni í Kiljuna.
Ég hef aldrei komið þangað áður – samt er ég ekki alveg sá miðbæjarmaður sem sumir virðast halda, ég hef komið í flest plássin á Íslandi.
En Siglufjörð átti ég eftir. Segi eins og er að ég er uppnuminn eftir að hafa komið þangað.
Þetta er merkilegur bær, með stórbrotna sögu og bæjarmyndin er sérstök, maður skynjar að þarna var eitt sinn mikið líf, mikil umsvif.
Aðalgatan á Siglufirði var eitt sinn ein helsta gata á Íslandi, með samkomuhúsum, krám, verslunum, kvikmyndahúsi og iðandi mannlífi. Þarna var fólk frá ýmsum þjóðum og stundum svo mikil mannmergð að minnti á stórgötur í erlendum borgum.
Þetta var sérlega ánægjuleg ferð.
Þarna er saga við hvert fótmál, hið stórkostlega Síldarminjasafn og skemmtilegir menn sem við hittum, ég nefni frumkvöðulinn Örlyg Kristfinnsson sem er allt í senn safnstjóri, myndlistarmaður og rithöfundur, Þórarin Hannesson í Ljóðasetrinu og svo Pál Helgason sem er hagmæltur, fróður og sérlega gamansamur.
Örlygur Kristfinnsson. Í dag var hann útnefndur bæjarlistamaður Siglufjarðar. Myndin er af vefnum siglo.is.