Síðasta uppákoman í ríkisstjórninni vekur spurningar um hvort ekki sé kominn tími á einhvers konar þjóðarsátt – eða sátt milli stjórnmálaflokkanna – um að verðleikar fái að ráða þegar fólk er sett í ráðherrastóla.
Þ.e. að ráðherratign ráðist ekki eingöngu af goggunarröð eða stöðu viðkomandi innan flokks eða kjördæmis.
Þetta hefði kannski átt að vera eitt af því sem breyttist við hrunið.
Nú má vel vera að ekki sé hægt að láta Jón Bjarnason fara – einmitt vegna þess að hann hefur ákveðna stöðu innan flokks síns og getur notað hana til hins ítrasta. Stjórnin má eiginlega ekki við að missa hann fyrir borð.
Það er vandasöm staða – og ekki síður í ljósi þess að frá bæjardyrum Samfylkingarinnar – sem er búin að fá upp í kok af téðum Jóni – hangir ríkisstjórnin einkum saman á einum hlut: Aðildarumsókninni að Evrópusambandinu sem Jón er á móti!
Þannig það er að nokkru leyti Evrópusambandið sem tryggir veru Jóns í ríkisstjórninni.