Sigmundur Ernir Rúnarsson hótar stjórnarslitum í grein á heimasíðu sinni. Hann skrifar:
„Hér skilur á milli Vinstri grænna og Samfylkingarinnar.
Gott og vel.
Verkefni næstu daga er að ráðherrar Samfylkingarinnar setji sig í samband við Huang Nubo og ráði málum fram. Það hefur alltaf verið siður Íslendinga að tala við útlenda gesti – en segja ekki nei við þá óséða. Það er Samfylkingarinnar að taka frumkvæði í málinu.
Ella skilur á milli.“
Þetta er nokkuð áhugavert.
Ef Samfylkingin færi í einhverjar sérviðræður við Huang Nubo um landakaup myndi það jafngilda stjórnarslitum.
Ef ekki, þá skilur á milli, segir Sigmundur.
Felst í því hótun um að hætta að styðja ríkisstjórnina – og færi þá Kristján Möller sömu leið? Hann er ekki enn búinn að fyrirgefa að hann var sviptur ráðherradómi.
Þeir gætu gengið í Sjálfstæðisflokkinn – þar sem þeir virðast eiga ágætlega heima – en það setur strik í reikninginn að á þeim bæ eru skiptar skoðanir um jarðakaup Nubos. Bjarni Benediktsson hefur lýst sig andvígan þeim.
Það má svo velta fyrir sér hvað myndi gerast ef ríkisstjórnin félli.
Þá yrði líklega að boða til kosninga, stjórnarflokkarnir myndu líklega bíða afhroð, þingmenn þeirra myndu unnvörpum týna tölunni, Sjálfstæðisflokkur og Framsókn kæmust til valda – nema það yrði einhver allsherjarhreinsun með nýjum framboðum.
Það er allavega hugsanlegt.