Ég sé að Vesturbæjarlaugin hefur verið á barnsaldri þegar ég fór fyrst í hana, hún er fimmtíu ára um þessar mundir.
Í Vesturbæjarlauginni var maður í skólasundi. Ógleymanlegur er hinn gormælti Kristján sem var þar í sturtuklefunum með járnstöng sem hann notaði til að skrúfa fyrir og frá sturtunum. Hann var ekki alltaf glaður í bragði og lagði mikla áherslu á að drengir þvægju sér vel.
Ég var frekar seinn að læra að synda – og í eitt skiptið setti sundkennarinn mig í barnapottinn með kút og kork, kallaði mig Rasmus Klump, og lét hin börnin horfa á. Það myndi líklega kallast einelti í dag, en orðið var varla þekkt þá.
Þá fór pabbi með mér í sund og kenndi mér tökin.
Þegar Vesturbæjarlaugin opnaði voru einungis tvær sundlaugar í Reykjavík, gömlu Laugarnar inni í Laugardal og Sundhöllinn.
Mér finnst eins og einhvern tímann hafi verið farið með mig í gömlu Laugarnar, en ég man það ekki glöggt. Þær lokuðu 1967.
Einstöku sinnum fór maður í Sundhöllina, en þar inni fannst mér ríkja einhver heragi sem var ekki skemmtilegur. Mig minnir að börnum hafi verið hleypt ofan í laugina í hollum, þau fengu mismunandi litar teygjur svo hægt væri að greina þau í sundur.
Þannig að Sundlaug Vesturbæjar var mín laug lengst af – en nú verð ég að viðurkenna að mér finnst best að fara í annað sveitarfélag í sund, í laugina á Seltjarnarnesi.
Hér má sjá myndir úr þættinum Einu sinni var þar sem er fjallað um lokun gömlu Lauganna: