Samkvæmt nýrri skoðanakönnun nýtur Ólafur Ragnar Grímsson meirihlutafylgis til að sitja áfram sem forseti Íslands. Reyndar eru yfirburðir hans ekki miklir, og ef kæmi fram sterkur frambjóðandi er alls ekki víst að hann myndi vinna forsetakosningar miðað við þessar tölur. Það er því spurning hvort hann gefi kost á sér áfram – líklega þykir honum erfið tilhugsun að enda ferilinn með að tapa kosningum.
Það er líka eftirtektarvert að Ólafur Ragnar nýtur meira fylgis á hægramegin en meðal vinstrimanna. Það er mikil breyting frá því sem áður var þegar hægrimenn töluðu gjarnan um hann sem „Grísinn“ og fundu honum allt til foráttu. Líklega voru það nokkrir pótintátar á hægrivængnum sem tryggðu Ólafi forsetakjörið þegar þeir hófu að auglýsa gegn honum í kosningunum 1996.
En það er samt ekki víst að Sjálfstæðismenn kæri sig endilega um Ólaf sem forseta. Eins og staðan er bendir flest til þess að Sjálfstæðisflokkurinn komist til valda í næstu kosningum sem verða eftir eitt og hálft ár. Verði Ólafur endurkjörinn sem forseti þurfa Sjálfstæðismenn þá að sitja uppi með hann – og þá vofir alltaf yfir hættan á að hann beiti málskotsréttinum. Það er inngreipt í Sjálfstæðisflokkinn frá gamalli tíð að forseti eigi að vera prúður og stilltur og ekki skipta sér af stjórnmálum – það væri lítt í anda hans að stjórna með valdsækinn forseta sem skirrist ekki við að segja hug sinn á alþjóðavettvangi.
Þegar Pétur Kr. Hafstein bauð sig fram 1996 varð uppvíst að hann hafði átt fund með Davíð Oddssyni forsætisráðherra áður en hann fór í framboðið. Það þótti virka illa, líkt og Pétur væri að biðja um leyfi. Pétri fannst þetta sjálfsagt og Davíð sennilega líka – þetta var í raun nokkuð upplýsandi um þær hugmyndir sem forystumenn í Sjálfstæðisflokknum hafa haft um forsetaembættið.