Efnahagsástandinu í heiminum hefur verið lýst þannig að það séu nokkrar staðbundnar kreppur sem hætt sé við að breiðist út til annarra landa.
Á Írlandi er kreppa sem stafar aðallega af ofþenslu og húsnæðisbólu sem sprakk. Stjórnarflokknum gamla Fianna Fáil var grimmilega refsað í síðustu kosningum.
Í Grikklandi er ríkisfjármálakreppa sem byggir á því að ríkisbókhaldið fór algjörlega úr böndunum – ríkisstjórn Nea Demokratia gekk meira að segja svo langt að falsa bókhaldið. Flokkurinn missti völd í kosningum, en það var nokkru áður en umfang vandans varð ljóst.
Á Ítalíu er vandinn ekki ósvipaður – ríkið er einfaldlega orðið of skuldugt. Það er ekki bara hægt að kenna hroðalegu stjórnarfari um, heldur líka því að lán buðust á evruvöxtum sem voru alltof lagir.
Á Spáni sprakk einhver mesta húsnæðisbóla í sögunni. Hún hafði staðið lengi yfir – en þegar allt fór til andskotans réð stjórn Sósíalistaflokksins ekki við neitt og var refsað fyrir um helgina.
Grunnurinn að vandanum er hin óhóflega skuldsetning sem varð á Vesturlöndum á síðasta áratug, þar sem bankar dældu út lánsfé eins og enginn væri morgundagurinn.
En það afsakar ekki stjórnvöld í hverju landi. Mörg lönd hafa meira að segja staðið kreppuna ágætlega af sér. Þegar kemur kreppa falla hinir veikustu fyrst – ef ástandið er alvarlegt kemur röðin síðar að þeim sem fóru skynsamlegar að ráði sínu. En enginn er ónæmur í hnattvæddum heimi.
Willem Buiter orðaði það svo að á Íslandi hefði ríkt hópgeðveiki á árunum fyrir hrun. Paul Krugman sagði að ruglið hérna hefði verið ótrúlegt.
Það var ekkert vit í að leyfa bönkum að verða tíu sinnum stærri en íslenska hagkerfið. Það var ekkert vit í að veðsetja kvótann á yfirverði. Það var ekkert vit í að setja banka í hendurnar á sérvöldum óráðsíumönnum sem hófu eftir það að moka peningum í sjálfa sig – og út úr lífeyrissjóðum og sparisjóðum. Það var ekkert vit í þeirri hugmynd að Íslendingar kynnu eitthvað í alþjóðlegri fjármálastarfsemi sem aðrir hefðu ekki fattað. Það var ekkert vit í að leyfa þjóðinni að taka gjaldeyrislán sem síðar kom í ljós að voru ólögleg. Það var heldur ekkert vit að ætla byggja velmegun á Íslandi á gengi sem var alltof hátt skráð.
Það var ekkert vit að leyfa stofnun Icesavereikninganna þegar spilaborgin fór að riða til falls. Það var ekkert vit að dæla peningum úr Seðlabankanum í fallandi banka – sem olli síðan gjaldþroti Seðlabankans. Það var ekkert vit í störfum Fjármálaeftirlitsins. Og það var lítið vit í störfum stjórmálamanna sem létu eins og þetta væri einhver ímyndarvandi, en voru að öðru leyti ófærir um að aðhafast.
En það er eiginlega merkilegt hvað menn eru duglegir við að reyna að endurskrifa söguna – eða jafnvel moka yfir hana.