Eins og áður er komið fram verður Hannes Pétursson skáld gestur í Kiljunni í kvöld. Hann segir frá nýrri bók eftir sig, minningum úr Skagafirði, en hún nefnist Jarðlag í tímann.
Ingunn Snædal, skáldkona af Jökuldal, er annar gestur í þættinum. Hún hefur gefið út ljóðabækur sem hafa náð miklum vinsældum, enda er kveðskapur hennar skemmtilega óþvingaður og bersögull. Ný ljóðabók hennar nefnist Það sem ég hefði átt að segja.
Sá góðkunni skólamaður Sölvi Sveinsson hefur tekið saman bækur um íslenska málnotkun, sú nýjasta heitir Táknin í málinu og er sérlega forvitnieg. Við hittum Sölva í Landakotsskóla þar sem hann er skólastjóri.
Kolbrún Bergþórsdóttir og Páll Baldvin Baldvinsson fjalla um umdeilda bók, Íslenska kommúnista eftir Hannes Hólmstein Gissurarson.
En meðal þeirra sem koma við sögu í frásögn Braga Kristjónssonar er skáldið Dósóþeus Tímóteusson.