Sums staðar hefur maður sé gagnrýni vegna þess að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafi verið ráðin sem yfirmaður skrifstofu UN Women í Afganistan.
Menn hafa talað eins og þarna sé náðugt djobb hjá Sameinuðu þjóðunum.
Það er ekki alveg víst.
Staðreyndin er sú að það gekk ekki vel að manna þetta starf.
Afganistan þykir ekki eftirsóttur starfsvettvangur. Það hvorki gengur né rekur í að koma á friði í landinu og það er ljóst að Bandaríkin og Natóríki leita leiða til að komast burt.
Afganistan verður skilið eftir í rúst – þannig hefur það reyndar verið lengi – og líklegt er að til valda komist einhvers konar sambræðingur milli stríðandi fylkinga í landinu. Talibanar eru ekki lengur ein hreyfing, heldur eru þeir margklofnir.
Ofbeldi gegn konum fer ekki minnkandi í Afganistan þrátt fyrir lög sem sett voru um jafnrétti kynjanna, þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Sameinuðu þjóðunum sem nefnist Langt í land.
Margt bendir líka til þess að þegar vestrið gefst upp í Afganistan verði konunum fórnað – þær verði sendar beint aftur í búrkurnar.